Hjá Janusi endurhæfingu fer fram fjölbreytt starfs- og atvinnuendurhæfing. Markmið starfseminnar er að aðstoða fólk til að komast á vinnumarkaðinn og fyrirbyggja varanlega örorku.
Hjá Janusi endurhæfingu starfa hátt á þriðja tug sérfræðinga. Unnið er í þverfaglegum teymum.
Hver þátttakandi fær tengilið sem er fagaðili og á bak við hann er teymi sérfræðinga. Tengiliðurinn og þátttakandinn gera einstaklingsmiðaða áætlun varðandi endurhæfinguna sem tekur mið af markmiðum og þörfum þátttakandans. Þátttakandinn setur sér markmiði varðandi endurhæfingu sína í samvinnu við tengilið sinn og nýtur stuðnings þverfaglegs teymis Janusar endurhæfingar til að fylgja þeim eftir.
Um leið og þátttakandinn vinnur að markmiðum sínum fer fram reglulegt mat á stöðu hans, endurskoðun á markmiðum og árangri ásamt gerð nýrra markmiða, allt eftir þörfum hverju sinni.
Þátttakandanum standa til boða einstaklingsviðtöl eftir þörfum við starfsmenn Janusar endurhæfingar. Markmið þeirra geta t.d. verið að vinna með markmiðssetningu, daglegar venjur og rútínu, líkamlega heilsu, andlega heilsu, sjálfskoðun, sjálfseflingu og aðstoð við félagsleg- og fjárhagsleg mál. Fjölskylduráðgjafar sjá um hjóna- og fjölskylduráðgjöf eftir þörfum. Auk þess sem í boði er vinnuvistfræðileg ráðgjöf.
Endurhæfingin fer fram í húsnæði Janusar endurhæfingar, hjá ýmsum samstarfsaðilum Janusar endurhæfingar auk starfsþjálfunar á vinnumarkaðnum.
Janus endurhæfing er í samvinnu við marga aðila. Má sem dæmi nefna; Heilsugæsluna, Virk starfsendurhæfingarsjóð, Landspítalann, Tækniskólann – skóla atvinnulífsins, World Class og Umboðsmann skuldara.
Neysla
Viðhorf og reglur Janusar endurhæfingar til fíkniefnanotkunar, og ofneyslu áfengis:
- Notkun fíkniefna er ólögleg skv. landslögum.
- Notkun fíkniefna, annarra ólöglegra efna/ofnotkun áfengis er hættuleg heilsunni.
- Notkun fíkniefna, annarra ólöglegra efna /ofnotkun áfengis er ekki leyfð á endurhæfingatímabilinu.
- Notkun fíkniefna, annarra ólöglegra efna /ofnotkun áfengis og endurhæfing fara ekki saman.
- Notkun fíkniefna, annarra ólöglegra efna /ofnotkun áfengis hindrar þátttakandann í að ná árangri í endurhæfingunni.
- Miðað er við 3 mánuði án notkunar fíkniefna, ólöglegra efna /ofnotkunar áfengis áður en endurhæfing hefst.